Það er eitthvað meira

Við trúum því sem við sjáum og þangað til við sjáum það - þá er það ekki til. 

Við þessa fullyrðingu erum við flest alin upp en hún er að sjálfsögðu kolröng.
Við sjáum ekki rafmagn, gagnaflutning um gervitungl, vindinn, sólargeislana, aðdráttarfafl jarðar, togkraft tunglsins, orðin sem við segjum, fallega tóna, hugsanir okkar. . . . við sjáum það ekki en við trúum því að það sé til.

Hvers vegna?  Jú vegna þess að við sjáum afleiðingar þess, hvað það gerir, þetta sem við sjáum ekki.

Þegar við sjáum hvaða áhrif það (sem við sjáum ekki) hefur - þá er það til.

Þetta á við um allt ofantalið en líka um andlegt orkuflæði, heilun, bænina, hugboð, íþyngjandi orkuform . . . . . og svo ótal margt fleira eins og orku himintunglanna.

Við lærum strax á unga aldri að við eigum að borða hollan mat, þrífa líkama okkar, ganga í hreinum fötum og skúra gólfin. Þetta eru veraldlegir þættir og alveg nauðsynlegir í veraldlegum hluta lífsins. Það gleymdist hinsvegar að segja okkur að við eigum að næra andlega líkamann okkar, hreinsa til í sálartetrinu, þrífa áruna og losa okkur við íþyngjandi orkuform úr vistarverum okkar og andlegu rými. Það eru andlegir þættir og alveg nauðsynlegir í andlegum hluta lífsins.

Andlegur þroski eykst með tímanum þó við séum ekki meðvituð um það en hann eykst hraðar og okkur liður betur ef við erum meðvituð um það og vinnum að því.

Oftast byrjar meðvitaður andlegur þroski á því að við áttum okkur á að það er "eitthvað" sem við vitum en við getum ekki sagt hvað það er.  Það er eins og við séum komin að einhverjum landamærum og hinu megin er eitthvað sem kallar.  Það er þarna og þó við sjáum það ekki þá vitum við að það er þarna.  Það fer eftir umhverfinu okkar og hversu trú við erum sjálfum okkur hvort við ræðum það við aðra eða undrum okkur bara á þessu í einrúmi.  Við höldum samt áfram, svona inná við, að hugsa um þetta "eitthvað" og reynum að átta okkur á því.

Við notum til þess þau skilningarvit sem við höfum lært að nota. Augun, eyrun, nefið, snertiskynið og rekum jafnvel út úr okkur tunguna.  Hugurinn sem er forritaður til að efast um allt sem skilningarvitin fimm skynja ekki kemst ekki að neinni niðurstöðu en svona til vara bendir hann á möguleikann að þetta sé kannski vitleysa.

Við höldum áfram að þenja skynfærin og skilningarvitin og förum kannski að finna eða skynja eitthvað meira.  Kannski svo mikið að við förum að sjá samhengi í því.  Einhverntíma kemur svo að því að við eigum samtal við aðra manneskju þar sem þetta "eitthvað" ber á góma og við segjum frá því sem við höfum verið að hugsa um eða fundið.  Skyndilega er þetta "eitthvað" orðið raunverulegra vegna þess að aðrir kannast við það líka.  Við förum að spyrja spurninga en þó ekki hvern sem er.  Við förum varlega með þetta en leggjum alltaf við hlustir ef það ber á góma.  Kannski finnum við bók til að lesa eða fréttum af einhverjum sem talar um þessi mál, því þetta "eitthvað" vekur þrá til að svara kalli þess.

Hrafnhildur Geirsdóttir 25. mars 2009