Hvar er friðurinn minn?

Í þjóðarkortinu má sjá að almenningur, fólkið í landinu, er ótrúlega seigt og duglegt. Orka almennings er orka Nautsins (þó orka þjóðarinnar sem heildar sé Tvíburaorka) og því er almenningur seinþreyttur til vandræða. Fólkið vill bara fá að vera í friði. Á meðan það hefur nóg að bíta og brenna er það til friðs og leyfir þeim sem ráða (kerfinu) að hafa hlutina eftir sínu höfði. Og þeir sem maka krókinn hafa hingað til getað treyst á úthald almennings til að sjá sér fyrir allsnægtum.

 Það mun aldrei breytast að fólkið í landinu er duglegt og þegar á reynir taka allir saman höndum og vinna það sem þarf að vinna. Til eru mýmörg dæmi um það og óþarfi að telja upp hér. Það sem hefur hinsvegar staðið almenningi fyrir þrifum er ótrúlega mikið langlundargeð og þolinmæði, Naut eru þolinmóðust allra.

En nú eru breyttir tímar. Nú hafa ekki allir nóg til að bíta og brenna, nú fær almenningur ekki að vera lengur í friði og þá líta Nautin upp. Hvað er á seyði? Hvar er friðurinn minn?

Þó Nautin séu þolinmóðust allra þá á þolinmæðin sér takmörk og þegar komið er að þeim mörkum birtist aðdáunarverð seigla hins íslenska almúga í þeirri mynd að vinna friðinn sinn aftur. Og þegar einhver (í þessu tilfelli þeir sem hafa makað krókinn á kostnað friðarins) stendur frammi fyrir Nauti sem vill fá eitthvað aftur sem búið er að taka af því, þá stendur sá frammi fyrir ofjarli sínum. Það labbar enginn í gegnum Naut frekar en í gegnum klett. Naut eru þrjósk og ef þau vilja eitthvað þá standa þau FAST á sínu af mikilli þolinmæði. Naut eru friðarsinnar, þau vilja ekki læti en ef þau þurfa að berja í potta, pönnur og tunnur til að fá friðinn sinn aftur þá gera þau það. Svona einfalt er það.

Eins og staðan er þessa dagana þá er ekki eins einfalt að fá friðinn aftur og að smella fingri en þá reynir á seigluna, dugnaðinn og úthaldið sem íslensk alþýðan á heimsmet í. Við getum byggt upp betra Ísland og við munum gera það. Við erum þannig gerð. Við munum líka fá friðinn okkar aftur, því við erum þannig gerð að vilja vera í friði.