Valentínusardagurinn

Fyrir þá sem vilja baða sig í rómantíkinni sem fylgir Valentínusardeginum (mánudaginn 14. febrúar) þá eru nokkur sjónarhorn til að átta sig á orkunni á Valentínusardaginn, út frá stjörnuspekinni.

Ástarplánetan Venus er í samstöðu við Plútó um þessar mundir en það er ekki hagstæð blanda í samskiptum. Tunglið, Venus/Plútó og Júpiter (sem hefur þann hæfileika að magna upp það sem fyrir er) mynda saman spennuþríhyrning. Ef litið er til þríhyrningsins Tungl-Venus-Júpiter þá er varla hægt að hugsa sér betri orku fyrir rómantískan Valentínusardag en það er ekki hægt að líta framhjá því að Plútó orkan blandast í málið. Plútó orkunni fylgir spenna sem passar ekki vel við létta rómantík auk þess sem hann lokar á flæðandi tilfinningaorku Tunglsins. Það þýðir ekki að elskendur verði upp á kannt, eins og sagt er, eða lendi í valdabaráttu og rifrildi heldur frekar að þessi spennuorka liggur svona í loftinu og hefur áhrif á stemninguna.

Ef við hinsvegar fylgjum Tunglinu eftir á sinni hraðferð og lítum eftir rómantískum tengingum kemur í ljós að nokkuð skynsamlegt gæti verið að horfa til helgarinnar, áður en Tunglið (sem tengist tilfinningunum) fer að lýsa upp spennuna sem er á milli Plútó og ástarplánetunnar Venusar.

Á laugardagskvöldið verður góð orka til að viðra hugmyndir, ræða heimspeki og kryfja málin. Sá dagur gæti því hentað einstaklega vel rómantískum pælurum og jafnvel rómantískum heimspekingum, jafnréttissinnum og félagsmálatröllum. Þá er Tunglið í Tvíbura í samhljóma þríhyrningi með Merkúr í Vatnsbera og Satúrnusi í Vog. Allt stjörnumerki sem eru loftmerki og tengjast huganum, hugmyndum og pælingum.

Þessi orka endist fram að hádegi sunnudagsins en þá svífur dreymandi orka Neptúnusar inn á sviðið og einhverjir verða þá ringlaðir smá stund, en það má þekkja þá sem tengjast þeirri orku á draumlyndu augnaráðinu. Þeir kippast hinsvegar niður á jörðina skömmu síðar þegar tilfinningaorka Tunglsins lendir í spennu við Úranusarorkuna sem getur bæði kveikt bál og pirring enda er þá kominn tími til að halda heim á leið eftir langt og rómantískt hugarflug og fara að huga að vinnu daginn eftir, á sjálfan Valentínusardaginn.