Handboltinn og Íslendingar

Af hverju eru Íslendingar svona góðir í handbolta? Þessi spurning var lögð fyrir Guðmund landsliðsþjálfara á dögunum. Hann sagðist oft vera spurður að þessu en að hann vissi það svo sem ekki. Handboltinn virtist henta Íslendingum vel, það hafi skapast ákveðin hefð í sambandi við handboltann og þekking væri til staðar.

Það er í rauninni til miklu einfaldara svar við spurningunni en hún er sú að Sólin í þjóðarkorti íslensku þjóðarinnar er í Tvíburamerkinu og þess vegna eru Íslendingar góðir í handbolta. Svo einfalt er það.

Orka Tvíburans er hreyfanleiki, fjölhæfni, sveigjanleiki, tilbreyting, tengja saman, miðla, kasta boltanum á milli. Orka hans dvínar ef lítið er um að vera en magnast þegar mikið er um að vera.  Hann þarf að vera á hreyfingu, fara á milli staða, skiptast á upplýsingum, hafa í mörg horn að líta, fara úr einu í annað, vera í umhverfi þar sem nýtist að vera fljótur að hugsa, fljótur að bregðast við nýjum upplýsingum, beina athyglinni á margt í einu, o.s.frv.

Virkni Tvíburaorkunnar í líkamanum tengist öllu því sem við notum til að tjá okkur, lungunum, raddböndunum, taugaboðunum, höndunum og öxlunum. Allt þetta sameinast í handboltanum og þess vegna eru Íslendingar svona góðir í handbolta og þess vegna sameinast líka íslenska þjóðin um handboltann.

Það var því ekki gáfulegt af Stöð2 að taka sameiningartáknið af íslensku þjóðinni og læsa HM í handbolti inni í áskriftarsjónvarpi.