Nú er háspenna í himintunglunum

Nú eru allsérstakar stöður í himintunglunum og mikil orka að byggjast upp. Plánetur eru að hrannast upp í Hrútsmerkinu, merki frumkvæðis, sjálfstæðis, óþolinmæði og baráttu. Hrúturinn býður ekki heldur lætur verkin tala. Þann 3. apríl bætist svo Mars, pláneta Hrútsins, í hópinn. Þarna eru þá samankomin Sólin sem beinir kastljósinu á Hrútsorkuna, Júpiter pláneta pólitíkur sem hitar og þenur upp stöðuna, Úranus sem magnar upp spennuna og rafmagnar, baráttuglaði Mars og samskiptaplánetan Merkúr, sem reyndar fer á móti straumnum því hann byrjar að fara afturábak þann 30. mars. Tunglið bætist í hópinn og það verður nýtt Tungl í Hrút þann 3. apríl sem gefur tóninn næstu 28 dagana. Þetta er hin öflugasta staða og mætti líkja henni við þaninn boga eða fallbyssu rétt áður en eldurinn er borinn að kveiknum. Því við þessa Hrútasamkomu er kerfiskarlinn Satúrnus í 180° spennuafstöðu og valdið, Plútó í 90° spennuafstöðu.  Það er því mikil spenna í gangi þessa dagana.

Á mannamáli mætti segja að það sem valdboð og kerfi í hverskonar mynd eru að reyna að halda niðri er í rauninni eins og púðurtunna.

Þessi staða á við um allan heiminn. Margt er í ólagi í heiminum og Hrúturinn hefur enga þolinmæði. Þess vegna mun heyrast frá þeim stöðum þar sem þolinmæðin er búin.

Merkúr í afturábak gírnum hjálpar ekki til því dregin verða upp gömul mál og þeim bætt á eldinn. Til að kóróna svo allt saman verða Úranus og Mars í samstöðu þann 4. apríl. Það kæmi ekki á óvart þó jarðarkúlan mundi kjálfa einhversstaðar því þessi mikla spenna mun leita einhversstaðar útrásar.

Þessi spennuhleðsla á við um jörðina sem slíka jafnt sem um þjóðir og einstaklinga. Ef þessi staða er í afstöðum við stjörnukort einstaklinga er mikil spennuorka í lífi viðkomandi. Í stjörnukorti  þjóða er þá að sama skapi spenna hjá viðkomandi þjóð. Fólk sem er fætt í byrjun Hrútsins, svona í kringum 22-23. mars finnur trúlega mikla orku í lífi sínu. Eins er um fólk sem er fætt í kringum 23. júní, 24. september og, 23. desember.  Gott er að nýta orkuna til verka.  Ef spennan er mikil og kannski erfið er gott að vera meðvitaður um að þetta er alheimsorka sem mun ganga yfir.

Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.  Það þarf að kíkja á stjörnukortin til að sjá hvort og hvernig afstaðan fellur inn í stjörnukort en ef við skoðum þjóðarkort Íslands þá verður mikill ágreiningur og læti gagnvart yfirvöldum núna í kringum og uppúr mánaðarmótunum, blekkingin eða rugl og misskilningur í framhaldinu og líklega á eftir að hrikta í stoðunum þegar Úranus verður í 180° spennuafstöðu við Rísandann í kringum 20. apríl.