"Love is in the air"

Ástar- og samskiptaorkan er nokkuð athyglisverð um þessar mundir.

Venus er komin í Hrútinn, sem er fyrir það eitt athyglisvert en auk þess eru í því merki núna 5 af 10 plánetum samankomnar. Júpíter, Merkúr, Úranus, Mars og svo auðvitað Venus, svo það er mikið um að vera í Hrútnum. Venus á eftir að verða þessum plánetum samferða í nokkra daga hverri á næstu 4 vikum.

Þegar Venus er í Hrút má segja að það verði meira frumkvæði í samskiptunum. Fólk sem er í ástarpælingum lætur slag standa og hefur samband, býður í dans eða út að borða, þó það sé kannski síður á þeim buxunum að binda sig rétt á meðan Venus er í Hrútnum eða fram til 16. maí. Eftir það verður annað uppi á teningnum þegar Venus fer í Nautið og hittir Mars um 20. maí en þá verður sungið “love is in the air”.

Núna yfir páskahelgina er Venus í samstöðu við Úranus sem hressir upp á Venusarorkuna, kveikir neista og hleypir meiri léttleika, gleði og kátínu í ástina og samskiptin. Um 27. apríl fer Venus í spennuafstöðu við Plútó í 4 daga og þá reynir á að vera ekki yfirgangsamur, afbrýðisamur eða eigingjarn. Þá reynir á hæfnina til að skilja að það sem pirrar okkur er að kenna okkur og þroska.

Frá 4. maí verður Venus í samfloti við Merkúr og gefur ljúfa og listræna tjáningu og síðan verða Venus og Merkúr í samfloti með Júpíter frá 10. maí í nokkra daga en þá tvíeflist tilfinninga- og tjáningarhitinn.
Í kringum 20. maí nær Venus að tengjast Mars í Nautinu. Í ljóðum er vorið tákn fyrir ástina, í stjörnuspeki eru Venus kvenorka og Mars karlorka og þegar þessar tvær plánetur eru í samstöðu, í Nauti, er ástin í loftinu. Hún er því nokkuð athyglisverð ástar- og samskiptaorkan um þessar mundir og næstu 4 vikurnar.

Þetta er dásamlegur tími fyrir ástfangna en líka fyrir rithöfunda og listamenn sem nota tjáningarorkuna til að sköpunar.