Prinsinn og prinsessan

Nú þegar brúðkaup aldarinnar gengur í garð er við hæfi að skoða hvernig orkan þeirra Williams Bretaprins og Kate Middleton leggst saman í samskiptakort þeirra og rýna örlítið í ástarmálin, tilfinningaböndin og einkalífið, sem öðrum þræði er ekkert einkalíf því kóngafólk er jú almennings eign, segja fróðir menn.

 

Hjónavottorð frá himintunglunum

Í grunnin eru Kate og William bæði lík og ólík. Sólin hennar er í Steingeit, hans í Krabba. Þau eru bæði frekar lokuð eða vilja halda sig hlémegin við sviðsljósið. Hún er jarðbundnari, hann er tilfinninganæmari. Þau eru bæði í eðli sínu ákveðin og hafa bæði þörf fyrir öryggi. Kate finnur öryggi í aga og uppbyggingu, William finnur öryggi í tilfinningalegum stuðningi og að eiga fjölskyldu og heimili.

Kate er hörð af sér og ósérhlífin, metnaðargjörn, traust og dugleg. William er verndandi og tilfinningalega styðjandi, næmur og umhyggjusamur. Umhyggjusemi sýnir Kate með metnaði sínum og árangursækni en hún ber ekki tilfinningar sínar á borð. Það gerir reyndar William ekki heldur. Hún er líkleg til að taka prinsessuhlutverk sitt alvarlega og standa sína plikt.

Þau eru bæði með Tungl í Krabba sem tengir þau traustum tilfinningaböndum. Þau eru tilfinningalega náin, skilja tilfinningar og þarfir hvors annars, eru góðir vinir og bera umhyggju hvort fyrir öðru. Bernskan og uppeldisfjölskyldan skiptir þau bæði miklu máli. Þau geta bæði verið mislynd og þurfa öðru hvoru að draga sig í hlé til að átta sig í næði á því hvað þeim finnst um eitt og annað. Þau eru bæði vanaföst og halda fast í siði og venjur sem þau ólust upp við. Bæði laða að sér börn og þau eiga alveg örugglega eftir að eignast börn ef Guð lofar. Þau munu baða börnin sín í umhyggju og vernda þau eins og kostur er.

Kate mun standa með bónda sínum sama á hverju dynur. Hún mun ýta undir persónulegan metnað hans og hjálpa honum að ná sínum persónulegu markmiðum, hvetja hann til dáða og vilja veg hans mestan og bestan.

Það er ekki auðvelt að vera opinber eign eins og kóngafólk er og því mun Kate finna mjög fyrir þeim skorðum sem hlutverki prinsessu eru settar. Hún mun upplifa tilfinningalega höfnun og þvingun og finnast stundum að hún ráði litlu um lífið sitt og því verður þetta ekki alltaf tóm hamingja fyrir hana en hún er hörð af sér. Þau munu sinna ábyrgðarstörfum sínum af miklum myndaskap og vinna vel saman en formfestan, kröfurnar og jafnvel gagnrýni mun hefta Kate og halda henni niðri á vissan hátt því hún tekur gagnrýni mjög alvarlega.

Á milli þeirra getur stundum verið innbyrðis samkeppni og eldur sem getur leitt til pirrings og ágreinings en að sama skapi eru þau ósigrandi þegar þau leggja saman hesta sína.

Þau eru bæði miklir pælarar, deila hugmyndum sínum og læra hvort af öðru. Þau hafa bæði áhuga á listum, menningu og hvers konar fagurfræði. Þau geta líka rætt saman um allt milli himins og jarðar og eru sniðug í að koma hugmyndum sínum á framfæri á hvaða formi sem er, jafnvel með því að stuðla að bókaútgáfu einhverskonar. Hver veit.

William og Kate eru ákaflega ástfangin og eru á margan hátt eins og sköpuð hvort fyrir annað. Þau kveikja hvort í öðru og ýta undir fegurð og sköpunarkraft hvors annars, sem bendir ekki síður til barneigna. Þeim líður mjög vel saman.