Rómantískur maí (16. til 26. maí)

Dagana 16. til 26. maí verður orka ástar, nautna og sköpunar ráðandi. Fyrir utan það að nú er vor í lofti og fuglarnir hamast við að gera sér hreiður og undirbúa fjölgun með tilheyrandi tilþrifum og athöfnum þá má sjá útfrá stöðu himintunglunum að þessi ljúfa orka náttúrunnar er sterkari nú en nokkurn tíma á þessum tíma ársins því nú fara saman karlorka Mars og kvenorka Venusar í nautnalega Nautsmerkinu og með þeim skokkar hinn samskipta- og tjáningaglaði Merkúr léttur í snúningum. Þessi nálægð Venusar og Mars í Nautinu verður næst árið 2075 en þá verður Merkúr í bakkgírnum svo ekki einu sinni þá nær orkan þeim hæðum sem hún nær núna.

Margir munu finna aukna tjáningarþörf, meira fyrir rómantískri orku, þörf fyrir nánd og vinskap auk þess sem þessi orka ýtir undir sköpun í allri sinni mynd. Sköpunarkrafturinn eykst hjá listamönnum, ástföngnum og öðrum sem hafa þörf fyrir að veita sköpunartjáningunni útrás og þeim sem nema fegurðina og dást að henni.

Í svona orkustraumum taka listamenn af öllum sortum sporið og dansa sköpunardansinn. Þeir mála, skrifa, dansa, syngja, elda góðan mat og rómantískar turtildúfur breiða út vængi ástarinnar eins og aldrei fyrr. Orkan byrjar að gera vart við sig um 16. maí og eftir því sem dagarnir líða nær helginni eykst hún eins og stigmagnandi tónlistin í Carmina Burana (Carl Orff). Helgin verður svo eins og trukkið í tónlistarkaflanum þegar hljómsveitin, allur kórinn og bassatrommurnar djöflast á hljóðhimnunum svo gæsahúðin læðist niður hrygginn á hlustandanum . . . . . já kannski pínu mögnuð lýsing en þegar Mars og Venus fara saman hönd í hönd í nákvæmlega sömu gráðunni í Nauti, þá heyrast sinfóníur.

Það er nóg að vera ástfanginn af lífinu, njóta stunda með vinum eða standa bara einn og túlka fegurð sólarlagsins til að heyra þessa sinfóníu.

Farðu út í kringum 20. maí og finndu lífsorkuna spila fyrir þig sína útgáfu af Carmina Burana. Láttu það ekki fram hjá þér fara.