Kínversk stjörnuspeki - Ár Drekans.

Samkvæmt kínverskri stjörnuspeki er ár Drekans.  Drekinn er í eðli sínu Eldur og orka hans er áberandi, óútreiknanleg, tilþrifamikil og hefur þannig ýkt áhrif á það sem á öðrum árum fær minni athygli.  Það er heilmikill fyrirgangur í skrúðgöngunni þar sem eldspúandi Drekinn fer fremstur en það gefur tóninn um orkuna og öðru hvoru verða atburðir á árinu sem fá svipaða athygli.  

Drekinn hefur þannig áhrif t.d. á veðrið að það verður tilþrifameira en venjulega.  Meira rok, meiri rigning og meiri snjór, sem við höfum reyndar fundið fyrir þó ekki sé liðið langt á árið, en hann boðar líka að það vori snemma og þá er gott að nýta alla þurru dagana um leið og þeir bjóðast því hvað er tilkomumeira en úrhellisrigning öðru hvoru?  Og ef það verða eldgos þá verða tilkomumikil flóð því samfara a.m.k. ef Drekinn fær einhverju ráðið um það.  

Síðast var ár Drekans árið 2000 og þá voru nokkrar athyglisverðar skrúðgöngur.  Sennilega sú eftirminnilegasta var þegar suðurlandsskjálftinn var 17. og 21. júní.  Hekla gaus í 11 daga og kristnir þustu á Þingvöll þegar Kristnihátíðin var sett.  Samfylkingin var stofnuð í maí og í næstu kosningum eftir það fékk flokkurinn 31% atkvæða og 19 þingmenn, sem hlýtur að teljast góður árangur hjá nýjum stjórnmálaflokki.  

Þar áður var 1976 ár Drekans og þá fór ein aðal skrúðgangan fram við 200 mílurnar þegar Þorskastríðið stóð sem hæst og Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta sem varð til þess að seinna Þorskastríðinu lauk með viðurkenningu Breta á 200 mílna efnahagslögsögu Íslands.  Nú Herjólfur kom til Vestmannaeyja og þeirri skrúðgöngu er ekki lokið ennþá! Hitaveita Suðurnesja var tekin í notkun.  Fyrstu Íslendingar til að hljóta verðlaun hjá Norðurlandaráði fengu bókmenntaverðlaun (Ólafur Jóhann) og tónskáldaverðlaun (Atli Heimir), Air Viking fór á hausinn og Arnarflug var stofnað, svo fátt eitt sé nefnt.

Kínaveldi er Dreki (í Drekamerkinu) og hvað er meira við hæfi en að sjálfur kínverski leiðtoginn Maó, hafi kvatt veröldina á ári Drekans 1976?

Ísland og ár Drekans
Flestir njóta góðs af orku Drekans en það fer eftir því í hvaða kínverska stjörnumerki viðkomandi er fæddur, hvernig hún nýtist.  Orka Drekans boðar uppgrip, velgengni og segir stórar fréttir, enda segir það sig sjálft að þegar mikil orka er í gangi þá er mikið um að vera.  

Íslenska þjóðin (Ísland) er í kínverska stjörnumerkinu Apanum og Apinn kann sko að vera í skrúðgöngu.  Hann stekkur á milli vagnanna og gagnast Drekanum vel með því að vera sveigjanlegur, fjölhæfur og hreyfanlegur, snar í snúningum og fljótur að lesa aðstæður.  Hann getur því komið ár sinni vel fyrir borð á ári Drekans EF hann passar sig á Drekanum sjálfum sem getur verði ansi óútreiknanlegur og spúð á Apann eldi eða kramið hann.  Drekinn elskar dramatík svo Apinn þarf að vera duglegur og útsjónarsamur en líka á varðbergi og hafa vaðið fyrir neðan sig.