Ísland í apríl og fram á sumar

Þegar þjóðarkortið (stjörnukort Íslands) er skoðað má sjá að apríl getur verið nokkuð athyglisverður tími.  Fyrir utan að þensla er í fjármálahúsinu (eða skuldahúsinu) sem bendir til aukinna umsvifa þá verður þensla í kringum fólkið í landinu, almúgann.  Almúginn lætur til sín taka á einhvern hátt, lætur í sér heyra.  Hann mun hafa skoðanir og taka pláss.  Hægt er að sjá fyrir sér að almenningur taki ákvarðanir um hvert skuli halda en við skulum sjá.  

Árið 2000 var þessi sama þensluorka á almúganum í stjörnukortinu, í maí nánar tiltekið, og þá var Samfylkingin stofnuð en 35% kjósenda sameinaðist um hana í næstu kosningum á eftir, þegar hún fékk 19 manns á þing. 

Á tímabilinu 1995 til 2000 hafði verið uppgangur og þensla sem fékk nafnið Netbólan en í það skiptið var það Internet-geirinn sem blés út.  Bólan náði hámarki sínu í mars 2000 en þá sprakk hún.  Netfyrirtæki fóru á hausinn og atvinnuleysi fór að gera vart við sig. 

Þegar Netbólan var í fullum vexti var skortur á tölvumenntuðu fólki og þá rifu tölvufyrirtækin nemendur úr skólunum sem voru tölvunarfræðinámi og fengu þá til að koma í vinnu til sín áður en þeir náðu að klára námið sitt. Þeir buðu gull og græna skóga sem mörgum þótti erfitt að hafna. Eftir að Netbólan sprakk sátu flestir þessara einstaklinga í súpunni, atvinnulausir, ómenntaðir og höfðu jafnvel stofnað fjölskyldu og fjárfest í húsnæði svo erfitt var að fara aftur í nám. Núna kvarta tölvufyrirtækin yfir því að það vanti tölvumenntað fólk. Vonandi endurtekur sorgarsagan sig ekki.

Efnahagshrunið var auðvitað miklu stærri skellur en Netbólan sem sprakk en það sem er líkt með þessum tímum er að almúginn mun láta í sér heyra núna þegar Júpíter þenur út og stækkar, eykur sjálfstraustið og blæs almúganum í brjóst.  Vissulega eru margar fylkingar að myndast núna en líklega verða þær ekki vinsælar sem hafa innanborðs atvinnustjórnmálamenn og “lýðræðispostula” sem voru á vinsældalistanum sem efnahagskerfið hrundi yfir.

Frelsis- og sjálfstæðisorka Úranusar er núna í sjálfmiðaða Hrútsmerkinu þar sem einstaklingsframtakið er í fyrirrúmi.  Það þýðir að einstaklingsframtakið hefur áhrif á þær breytingar og nýsköpun sem við munum sjá næstu árin.  Þegar Úranus á í hlut er erfitt að segja hvað breytist, hvað verður í kastljósinu eða að hverju rafmögnuð orkan beinist en víst er að það verður eitthvað óvænt, eitthvað nýtt eða einhver breyting.  Úranus er um þessar mundir (í mars 2012) í síðasta sinn, í bili, í afstöðu við Rísandann (andlit þjóðarinnar) og Miðhiminn (markmiðin) en Landsdómsmálið hefur heldur betur vakið athygli og gefið nýja mynd (nýtt andlit) af íslensku þjóðinni og óvænta niðurstöðu því fram á síðustu stundu voru menn að vona að ákærunni í Landsdómi yrði vísað frá.  Úranus hefur verið úr og í þessari afstöðu undanfarið ár eða svo en þá hefur alltaf gengið mikið á í ríkisstjórnarsamstarfinu.  Sú upplifun að vera að smala villiköttum er alveg dæmigerð fyrir orku Úranusar.

Það sem við getum öll verið sammála um að séu góðu fréttirnar í kortunum er að framkvæmdaorkan (Mars) tekur við sér en hún hefur verið til lítils gagns síðan í nóvember og nær botninum um miðjan apríl en eftir það geta þau mál bara lagast.  Það verður þó ekki fyrr en líða fer að júlí sem við förum að finna verulega að framkvæmdaorkan er komin í gírinn.  Mars fór inn í 12. hús í þjóðarkortinu í nóvember 2011 en í því húsi finnum við minnst fyrir framkvæmdaorkunni.  Seinni hluta janúar dró enn frekar úr kraftinum og hefur þetta gert það að verkum að verkefni og boðaðar framkvæmdir hafa tafist en það ástand skánar semsagt um miðjan apríl og verður komið í mun betri stöðu í júlí.  Auk þess verður frá júní aukin þensla á erlend samskipti, þekkingarleit og æðri menntun sem tengist mögulega hugviti, tækni, miðlun og samgöngum. 

Svo virðist sem skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafi verið eini tekjupósturinn undanfarið en líklega breytist það í maí.  Mögulega skapast þá tekjur með auðlindasköttum.

Satúrnus bendir á að eitthvað sem skipulagt var í nóvember 2011 þurfi að endurskoða og endurskipuleggja.  Það verður því eitthvað endurskoðað og endurskipulagt í apríl/maí og svo aftur í ágúst en þá ætti að vera kominn botn í málið, hvað sem það er.

Plútó í Steingeit þýðir að nú er verið að hreinsa kerfið, formið og strúktúrinn eða með öðrum orðum öll þau kerfi sem tilheyra þjóðum og heiminum.  Fjármálakerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, stjórnmálakerfi, húsnæðiskerfi, trúarkerfi, hernaðarkerfi og önnur kerfi hvaða nöfnum sem þau eru nefnd.  Niðurstaðan verður sú að það verður eftir sem vert er að halda í og pláss skapast fyrir nýtt til að vaxa og dafna.  Þetta gerist á löngum tíma og eftir á verðum við ánægð með það.

En allavega þá eru næstu mánuðir athyglisverðir út frá stjörnuspekilegu sjónarhorni og vonandi tekst íslensku þjóðinni að nýta orkuna sér í hag.

utanoginnan.is