Valentínusarstemning himintunglanna

Það má segja að nú sé Valentínusarstemning hjá himintunglunum því ástar- og samskiptaplánetan Venus er komin í samstöðu við heppni-og þensluplánetuna Júpíter.  Þennan ástardans má sjá í vesturátt á kvöldin en báðar pláneturnar skína skært og þó ekki væri nema fyrir stórfenglega fegurðina þá ylja þær manni um hjartarætur.

Orkan í þessum vangadansi ætti að efla og mýkja samskipti og kynda undir ástinni, gefa mýkt og fegurð, auka bjartsýni og efla listræna hæfileika.  Samskipti yfir hafið getur verið málið hjá sumum og einhverjir fara yfir strikið á bankareikningnum eða leyfilegan kaloríufjölda en allt er það í þágu nautna og vellíðunar.  Venusarorkan ýtir undir eyðslu en þegar Júpíter er kominn í spilið er ekki að spyrja að leikslokum.  Þetta er orkan sem fær mann til að kaupa fallega hluti, falleg föt, fara út að borða, vera í góðum félagskap og leyfa ástinni að leika fagra tóna.