Merkúr er Retró

Merkúr er Retró eins og það heitir á stjörnuspekimáli en þá fer hann aftur í afstöður við plánetur sem hann er nýbúin að vera í afstöðum við.  Þessi staða er núna og verður til 6. apríl n.k.
 

Orka Merkúr varðar flutninga-, samskipta- og upplýsingamál og allt sem því tengist. Orka hans er kvik eins og hugurinn enda er samhengi á milli hans og hugarorkunnar.  Þegar Merkúr er Retró hægist á þessari kviku orku og öllu sem henni tengist.  Tilfinningin um að vera utan við sig er því algeng þessa dagana.


Meira er um tafir í flutningamálum og á ferðalögum, afpantanir, tvíbókanir, breytingar og bilanir á samgöngu- og samskiptatækjum, samskipti geta einkennst af misskilningi og upplýsingar geta misritast, verið rangar eða það sem verra er, tapast.  Það er gott að gera ráð fyrir góðum tíma í ferðalög á þessum tíma, með hvaða faratæki sem er, og lesa vel yfir tölur og upplýsingar.


Kosturinn við þennan tíma er að orkan nýtist vel í verkefni sem áður var byrjað á, sem þarf að fara aftur yfir. Góður tími til að endurraða, endurnýja, endurhugsa, dusta rykið af ókláruðu verkefni en líka til að hitta gamla vini og skólafélaga, fara aftur á gamlan stað, já svona líta til baka og taka upp þráðinn aftur þar sem frá var horfið.