Venus gengur fyrir Sólina 5.-6. júní 2012

Kærleikurinn skiptir öllu máli
Hér eru vangaveltur mínar undanfarið færðar í orð í von um að ef ég deili þeim þá fái þær vængi.  Kveikjan að skrifunum er sjaldgæf afstaða milli Sólar, Venusar og Jarðar.

Óttinn

Við syndum í alheims-nægtabrunni en vitundin til að meðtaka það er ekki til staðar hjá okkur.  Í staðinn  upplifum við misrétti, skort, hnignun og við lifum í ótta.  Óttanum við hvað “þeir” eru að gera eða ekki að gera, óttanum við að eiga minna en hinir, óttanum við dauða hugmyndar okkar um allsnægtir.

Ef við gerum ekkert í málunum mun óttinn á endanum leiða okkur þangað sem við óttumst mest.

Til að vekja vitundina sem getur meðtekið tilvist okkar í alheims-nægtabrunninum þurfum við að færa daglegu vitundina okkar út úr óttanum og inn í kærleikann.

Óttinn magnast eftir því sem fleiri viðhalda honum og það má segja að hann sé smitandi.  Umræðan er fljót að fuðra upp um allt og alla ef hægt er að draga neikvæða ályktun af því sem um er rætt.  Röddin sem sér eitthvað jákvætt í stöðunni er kaffærð og sökuð um skort á samhygð og skilningi og röddin sem vill heyra jákvæðar fréttir kafnar í dómhörðum hrópum og atyrðum.  Á ensku er til orðið “fear porn”, eða óttaklám í beinni þýðingu.  Það vísar til þess að fólk geti haft ótta-fíkn og velti sér uppúr því sem veldur því ótta.

Kærleikurinn er mótefni við óttanum.

Fyrsta skrefið í áttina að kærleikanum er að upplifa eitt lítið augnablik, eina sekúndu, án óttans.  Næsta skref er að finna fleiri slík augnablik.  Hvert augnablik án óttans er gríðarlega mikilvægt og viðleitni hvers einasta einstaklings í áttina að kærleikanum skiptir miklu máli.

Hugleiðsla

Auðveldasta leiðin til að magna upp kærleikann er í gegnum hugleiðslu.  Markmiðið með hugleiðslunni er að stilla sig af í miðri vitundinni og finna kyrrðina þar.  Svona eins og að vera einn heima hjá sér í þögninni og kyrrðinni.  Og þar sem ekkert utanaðkomandi áreiti truflar er hægt að fara inná við, inn í kjarnann í miðri vitundinni.

Þetta krefst æfingar en því oftar sem hugleiðsla er iðkuð því lengri verður dvölin í kyrrðinni og kærleikanum þar til að lokum okkur tekst að færa daglegu vitundina úr óttanum inn í kærleikann.

Það er eftirsóknarvert að dvelja í kærleikanum og kyrrðinni.  Það gefur vellíðan.  Það ýtir undir umburðarlyndi gagnvart sjálfum sér og þ.a.l. öðrum.  Ef það er hægt að draga upp dökka mynd af hlutunum er líka hægt að finna jákvæðu hliðina.  Það minnir á litla sögu um gamlan Indíána sem sat með barnabörnunum og sagði þeim sögu:


„Í lífi hverrar manneskju er mikil barátta.  Barátta milli tveggja úlfa.  Annar þeirra er ótti, reiði, öfund, græðgi, hroki, sjálfsvorkunn, rógur og svik.  Hinn er gleði, kærleikur, auðmýkt, tillitsemi, samúð, umburðarlyndi, gjafmildi og heiðarleiki“

Eitt barnanna spurði:  „Afi, hvor úlfanna vinnur?“

Sá gamli horfði alvörugefinn á barnahópinn og sagði:  „Sá sem þú fóðrar“.


Kærleikurinn og óttinn hafa ólíka tíðni

Óttinn hefur langar og hægar sveiflur en kærleikurinn hraðari og styttri.  Gerð var tilraun* þar sem fram kom að tilfinningar hafa áhrif á kjarnasýrurnar (DNA) í okkur.  Óttinn veldur því að færri DNA kódar eru virkir sem dregur niður í orku líkamans en kærleikurinn virkjar fleiri kóda og örvar.  Þetta styrkir hugmyndina um að því fleiri kódar sem eru virkir í DNA því betur geti líkaminn viðhaldið sér og heilað sjálfan sig.  Með öðrum orðum að kærleikurinn sé heilandi.

Þessari tilraun var seinna fylgt eftir með því að rannsaka HIV smitaða einstaklinga og niðurstaðan var sú að þegar ýtt var undir tilfinningar eins og kærleika og þakklæti myndaðist 300.000 sinnum meira mótstöðuafl í líkamanum.

Sólin, Venus og Jörðin

Nú er að myndast sjaldgæf afstaða hjá himintunglunum sem mun ekki sjást aftur fyrr en eftir 235 ár.  Ástar og kærleiksplánetan Venus gengur fyrir Sólina 5. og 6. júní.  Venus verður þá á milli Sólarinnar og Jarðarinnar.  Þetta er táknræn afstaða sem við ættum að taka eftir og taka þátt í.  “Svo á jörðu sem á himni” er orðatiltæki upphaflega komið frá stjörnuspekinni og ef ást og kærleikur er í sviðsljósinu hjá himintunglunum er það sama að gerast hjá okkur.  Ef  sólargeislarnir hafa baðað sig í kærleikanum áður en þeir skína á Jörðina og okkur mennina er það líka dásamleg sending.

Máttur fjöldans

Það er góð tilfinning að opna hjarta sitt í kyrrð og hugleiða í kærleiksríkum sólargeislunum.  Að fylla hjartað af kærleika og leyfa kærleikstilfinningunni að flæða um sig og út frá sér í allar áttir.  Um allan heim mun fólk hugleiða í kærleika.  Við getum setta af stað kærleiksbylgju sem flæðir yfir lönd og strönd.  Baðað Jörðina í kærleika og heilað.  Ekki veitir af, hvernig sem á það er litið.  Það er hægt að hugleiða í einrúmi eða með öðrum, allan tímann, öðru hvoru eða bara einu sinni.  Hvert augnablik er gríðarlega mikilvægt og viðleitni hvers einasta einstaklings í áttina að kærleikanum er ákaflega mikilvæg.

Kærleikurinn auðveldar okkur að fyrirgefa

Ef við þurfum að fyrirgefa einhverjum er tækifærið til þess.  Þá getum við séð fyrir okkur að við gefum þeim sem við ætlum að fyrirgefa fallegt blóm.  Það getur verið táknið okkar um fyrirgefningu.  Eitt blómið er handa okkur sjálfum því við þurfum að fyrirgefa okkur sjálfum fyrir að hafa lifað í óttanum.  Þegar við höfum fyrirgefið, höfum við sleppt.

Venus gengur fyrir Sólina frá klukkan 22:00 þann 5. júní til klukkan 5:00 morguninn eftir, þann 6. júní.  Eina borgin í heiminum þar sem Sólin sest og rís aftur meðan Venus gengur fyrir Sólina er Reykjavík.


* Tilraunin var gerð af The Institute of Heart Mathand og ritgerðin hefur titilinn:  Local and Non local Effects of Coherent Heart Frequencies on Conformational Changes of DNA.

- - - - - - -

Ef þig vantar leiðbeiningar um hvernig er hægt að hugleiða er hér aðferð til að ná slökun og hugleiða í kærleika.

  1. Sestu niður í kyrrð.  Finndu afdrep inni, úti, í bílnum eða þar sem fer vel um þig og þú getur verið í friði.  Hafðu slökkt á símanum, sjónvarpinu, útvarpinu og því sem gæti truflað þig.
  2. Lokaðu augunum og andaðu rólega djúpt að þér, fylltu magann og brjóstkassann og þegar þú andar rólega frá þér, finndu þá axlirnar síga, finndu stressið losna úr öxlunum.  Endurtaktu þetta 4 til 5 sinnum.
  3. Taktu eftir líkamanum og finndu hvernig honum líður.  Hafðu bakið beint.
  4. Taktu eftir því hvernig þér líður tilfinningalega.
  5. Kyrrðu hugann.  Færðu athyglina inn í mitt höfuðið og haltu henni þar.  Þegar hugsanir koma upp í hugann leyfðu þeim að sýna sig augnablik og slepptu þeim svo.  Settu athyglina aftur í mitt höfuðið.  Hugurinn er vanur að stjórna hugsununum en núna ætlar þú að róa hugann og gefa honum frí smá stund.  Ef þú festist í hugsunum segðu þá við hugsunina “Ég ætla að hugsa um þetta á eftir” og slepptu hugsuninni.  Ef þú reynir að tæma hugann lendir þú bara í stríði við hann og þá nærðu ekki slökun.  Þetta krefst smá tækni og hún kemur með æfingunni.
  6. Finndu kyrrðina innra með þér og finndu hvað það er góð tilfinning að vera í kyrrðinni.  Magnaðu upp þessa góðu tilfinningu.  Finndu hana stækka, styrkjast, fylla brjóstið og líkamann.  Leyfðu þér að líða vel.  Mundu að sleppa hugsunum sem koma upp og finndu kyrrðina og góðu tilfinninguna magnast.
  7. Finndu kærleikann.  Kærleikurinn tengist auðveldlega þeim sem við berum umhyggju fyrir eins og litlu barni, gæludýri, makanum og foreldrunum sem dæmi.
  8. Þegar kærleikurinn fyllir brjóstið, leyfðu honum að fylla allan líkamann þinn, það gerir honum gott og heilar hann.  Baðaðu þig í kærleikanum og leyfðu honum að fara inn í hverja einustu frumu í líkamanum.  Þegar líkaminn er fylltur af kærleikstilfinningu leyfðu þá kærleikanum að flæða út frá þér til annarra og utanum Jörðina.  Því meira sem flæðir frá þér, því meira flæðir til þín.


Hafðu ekki áhyggjur þó þetta heppnist ekki 100% í fyrsta sinn.  Það gerir það sjaldnast.  Áhrifin hafa samt góð áhrif á þig og eftir því sem þú hugleiðir oftar því sterkari verða áhrifin.  Það getur verið passlegt að hugleiða í 10 mínútur til að byrja með og smá auka tímann.  30 mínútur er passlegt þegar maður hefur náð tökum á hugleiðslu.

Að dvelja í kyrrðinni í hugleiðslu er máttug tækni sem gefur slökun, andlegt og líkamlegt jafnvægi, umburðarlyndi, bætir einbeitingu og styrkir sjálfstraustið.  Margir hugleiða þannig daglega í 30 mínútur.  Að finna kærleikann flæða um sig og útfyrir er heilandi fyrir eigin líkama en líka þeirra sem maður umgengst, auk þess sem kærleikurinn hefur góð áhrif í samveru.

Það hentar ekki öllum að sitja kyrr í 30 mínútur með lokuð augu og hugleiða.  Þá er um að gera að finna sér leið.  Sumir hugleiða á meðan þeir vaska upp, strauja föt, ganga, raula, rugga sér, teikna, mála eða vinna róleg störf í einrúmi.  Það er líka hægt að hugleiða í styttri tíma en mikilvægt er að róa hugann og komast í slökunarástand.  

Þó það sé augljóst er rétt að nefna það að hugleiðsla og akstur fer ekki saman því athyglin þarf að vera á umferðinni.