21.12.2012 klukkan 11:12

21.12.2012 kl. 11:12

 Á þessu augnabliki er það helst að gerast að Sólinn fer úr Bogmanni og yfir í Steingeitina en það er alltaf eitthvað sérstakt við það.

Bogmannsorkan svífur yfir öllu síðustu vikurnar fyrir jólin en sá tími einkennist af hreyfanleika, bjartsýni og eirðarleysi.  Það er margt í gangi, margs að hlakka til og svo þarf að hitta hópana, fara á tónleika, kíkja í allar búðirnar . . . . í útlöndum jafnvel.  Bogmaðurinn situr ekki kyrr ótilneyddur.

Steingeitin er stjörnumerki skipulags, aga og strúktúrs en það er einmitt svolítið einkennandi fyrir jólin.  Við höfum öll ákveðið skipulag í kringum jólin, gerum hlutina í ákveðinni röð, rækjum skyldur okkar og sitjum prúð við jólaborðið.

Þegar við erum búin að þeytast um allar jarðir í Bogmannsorkunni án þess að nýta tímann allt of vel, komum við ótrúlega mörg í verk síðustu stundirnar fyrir jól þegar skipulag og ósérhlífni Steingeitarinnar tekur við.

Í ár fer Sólin í Steingeitina óvenjulega snemma svo það getur bara vel verið að við sem oft erum á síðustu stundu að undirbúa jólin verðum búin tímanlega þetta árið.  Hver veit.

 Gleðileg jól og allt-um-faðmandi jólaknús frá www.utanoginnan.is