Orka himintunglanna í ársbyrjun 2013

Þegar staða himintunglanna er skoðuð má í fáum orðum segja að árið 2013 geti verið ár til að ýta undir nýsköpun og frumlegar lausnir í samstarfi.  Þetta verður ár samstarfs, hreinsunar, uppbyggingar, endurskipulagningar og árangurs að því tilskildu að við tökum ábyrgð, sýnum frumkvæði, mörkum stefnuna og vinnum SAMAN samkvæmt henni.  Ef við veljum að gera það þá vinnur orkan með okkur.  Frumskilyrði er að við breytum viðhorfi okkar og hættum að bíða eftir að “ÞEIR” geri eitthvað og virkjum í stað þess framtak einstaklinganna til nýsköpunar og frumlegra lausna.  Við erum búin að vera svo lengi í krepputalinu (með krepptan huga) að nú er kominn tími til að sleppa fortíðinni, nýta þroskann sem við höfum öðlast og ganga inn í framtíðina með opinn huga.

Hreinsun, niðurbrot og uppbygging á kerfum.
Orka hreinsunar og niðurbrots á kerfunum heldur áfram á árinu.  Húsnæðiskerfið snertir flesta og er þar í fararbroddi enda margt hægt að laga á því sviði.  Fjölskyldurnar halda áfram að bera þungann þar til því verður breytt.  Við þurfum að vinna saman og vera meðvituð um hvernig við viljum hafa húsnæðiskerfið og endurskipuleggja það út frá okkar sýn á heilbrigt húsnæðiskerfi.  Orkan er okkur í hag hvað þetta varðar.  Nú þarf að setja á blað hvernig drauma-húsnæðiskerfið lítur út og vinna svo að því að gera það að veruleika.  Það er staðreynd að kerfin eru að breytast en spurningin er í hvaða átt við viljum að þau þróist?

Stjórnmálin eru svo sannarlega eitt af þeim úreltu kerfum sem eru í hreinsun, niðurbroti og uppbyggingu og kannski sérstaklega valdabákn eins og gömlu stjórnmálaflokkarnir.  Ég tek það fram að ég er ekki í pólitík og hef engan áhuga á að flækja mér í stjórnmál en ef við förum til baka með því að kjósa yfir okkur Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn aftur þá förum við aftur á byrjunar reitinn “Guð blessi Ísland” og þá segi ég nú bara Guð blessi Ísland:).  En grínlaust þá kallar orkan sem er virk núna á það að við tökum í sundur lið fyrir lið form og strúktúr samfélagsins og finnum hornsteininn.  Við þurfum að finna kjarnann í því sem skiptir máli, henda því sem virkar ekki og hlúa að hinu.  Það er augljóst hvað skiptir gömlu flokkakerfin máli en það eru völd og valdatafl sem hin vinnandi stétt fjármagnar.  Nú þarf hin vinnandi stétt að líta upp úr dagsverkunum og spyrja sig hvað hún vill leggja áherslu á og sýna þá ábyrgð að ráða hæfa einstaklinga/flokka til að byggja upp í samræmi við það.

Heilbrigðismálin eru annað dæmi um kerfi sem er í rússíbana niðurbrots og enduruppbyggingar.  Kerfið eins og það er, er of dýrt fyrir okkar litla samfélag, kannski vegna þess að hornsteinninn og megin markmið heilbrigðiskerfisins liggja ekki skýrt fyrir.  Viljum við heilbrigðiskerfi sem leggur áherslu á að stuðla að heilbrigði til að koma í veg fyrir veikindi eða heilbrigðiskerfi sem rétt svo og varla, getur meðhöndlað einstaklingana þegar þeir eru orðnir veikir.  Við eigum vel menntaða, hæfa og frábæra einstaklinga í heilbrigðiskerfinu sem geta gert hvort tveggja.  Aftur komum við að ábyrgð hinnar vinnandi stéttar sem felst í því að velja þarna á milli.  Allt byrjar þetta hjá okkur sjálfum.

Það er ekki hægt að tala um allt í stuttri grein, sem þegar er orðin löng strax í byrjun en til að stytta málið þá væri hægt að nefna auk ofantalins; menntakerfið, verkalýðsfélögin, landbúnaðinn, utanríkismálin, sjávarútveginn, kirkjuna og fjölmiðlana sem eru í hreinsun, niðurbroti og enduruppbyggingu en eflaust mætti nefna margt fleira sem mér dettur ekki í hug núna.  Það er t.d. augljóst á gervihnattaöld að þörfin fyrir sendiráð í dýru húsnæði um allar heimsins byggðir er frekar úrelt, ekki satt?  Það má nota hagkvæmari úrræði til að sinna utanríkismálunum.  Svo má ekki gleyma aðal kerfinu, stjórnarskránni.  Það er eitt mikilvægasta verkefnið okkar, ef við ætlum að breyta stjórnarskránni, að við lítum ekki á það sem verkefni sem einhverjir aðrir eiga að sjá um.  Ísland er heimilið okkar og enginn veit betur en við sjálf hvernig stjórnarskrá hentar okkur.  

Fjármálin
Haldið verður áfram að grafa, rannsaka og taka til í fjármálunum.  Þetta er tími alvöru í sambandi við fjármálin og ýmislegt mun koma upp á yfirborðið.

Við þurfum að skoða hvaða hæfileika við Íslendingar höfum og nýta okkar þá til tekjuöflunar en af mörgu er að taka því við erum duglegt fólk, úrræðagóð, fjölhæf og búum yfir aðlögunarhæfni, sem við eigum ekki að nota í að sætta okkur við bág kjör.  Við höfum verið alltof lin og kærulaus með því að selja öðrum þjóðum hráefnið okkar sem þær nýta sér til hagsbóta, atvinnusköpunar og virðisaukningar.  T.d. er hægt að kaupa niðurgreitt íslenskt lambalæri í Færeyjum á miklu lægra verði en í verslunum á Íslandi og þá er búið að reikna inn í verðið flutningskostnaðinn en sá frægi skratti var alltaf sagður sökudólgurinn í háu verði á Íslandi.

Við eigum frábæra og heimsþekkta kokka sem geta töfrað fram uppskriftir að réttum í neytendapakkningum til útflutnings.  Það skapar tekjur og atvinnu.  Fiskurinn okkar er annað dæmi um vannýtingu á hráefni en við seljum óunnið hráefnið úr landi í stað þess að vinna það hérna heima.  Við eigum líka að hætta að gefa rafmagnið, þó við eigum nóg af því.  Við eigum að nota það okkur til tekjuöflunar t.d. með ylrækt og rækta paprikur, tómata, gúrkur, gulrætur og fleira góðgæti allt árið í kring og sjá okkur sjálfum fyrir grænmeti og spara gjaldeyri í stað þess að flytja það inn yfir vetrarmánuðina.  Við gætum líka flutt út grænmeti því alltaf er eftirspurn eftir því og það eykur gjaldeyristekjur okkar.  Ef útlendingar vilja ekki kaupa rafmagnið okkar á því verði sem við setjum upp þá eigum við ekki að selja þeim það.  Það er skárra að selja íslenskum ræktendum rafmagnið á lágu verði en útlendingum ef það verður til tekjuaukningar, sparnaðar og atvinnusköpunar.  Því meiri mat sem við búum til hérna heima fyrir okkur sjálf því meiri gjaldeyrir sparast.  Þetta hefur áhrif á fjármálin og afkomuna okkar sem við þurfum að veita athygli þetta árið.  Við þurfum líka að horfa á þá staðreynd að samdráttur getur verið í formi þess að við getum ekki selt til útlanda eins mikið og áður vegna minnkandi eftirspurnar á sumum sviðum en þess heldur ættum við að stuðla að sjálfbærni þar sem skortur á gjaldeyri (ef salan til útlanda minnkar) skikkar okkur til að vanda valið á því sem við kaupum inn frá útlöndum.  Við ættum að hafa vaðið fyrir neðan okkur en ekki bíða bara eftir að “EITTHVAД gerist.

Nýsköpun, frumlegar lausnir og samstarf  
Orka einstaklingsframtaksins er virk en í því sambandi þarf að leggja áherslu á samstarf, eins öfugsnúið og það hljómar.  Líklega er það áherslu á nýsköpun og samstarf í þeim efnum.  Við eigum helling af raunverulegum snillingum hérna í þessu dásamlega landi sem hafa ekki verið í sviðsljósinu en snilligáfa þeirra er tekjuskapandi.  Margt hefur verið gert og meira er hægt að gera.  T.d. er búið að stofna nýsköpunarráðuneyti.  Það er eining sem þarf af alvöru og miklum þunga að fá vægi til finna einstaklingsframtakinu farveg, sameina kraftana og virkja óbeislaða og frumlega nýsköpunarorku sem við búum yfir en allt þetta má sjá hjá himintunglunum núna.  Einstaklingar og jafnvel stofnanir eiga að sýna frumkvæði en ekki bíða eftir símtali frá Steingrími.  Frumkvæði er mjög mikilvægt í þessu sambandi og því hvet ég alla nýsköpunar- og framfarasinna með góðar og jafnvel frumlegar hugmyndir í pokahorninu til að spretta upp úr þægilegu stólunum sínum, bretta upp ermarnar, láta vita af sér og gefa kost á sér í samstarf.

Fleiri greinar geta skapað tekjur eins og tækni-iðnaðurinn, sérfræðiþekking á sviði orkumála og vísinda, hugbúnaðargeirinn o.s.frv.  Við eigum líka frábært listafólk sem hefur gert það gott og mun halda því áfram á árinu.  Við höfum tækifæri til að auka samstarf við útlönd á ýmsum sviðum og þaðan er litið til þess hvernig okkar sýn á enduruppbygginginu er.

Það er málið með Íslensku þjóðina, eins stórhuga og hún er, að þá efumst við samt um hversu megnug við erum eða trúum því ekki nógu mikið.  Við erum flott þjóð, við erum sterkir og klárir einstaklingar.   Við erum líka dugleg, vinnusöm og afkastamikil.  Við munum borga skuldirnar okkar– það er klárt.  Hefur alltaf verið þannig og verður þannig áfram.  Einhvern tíma seinna munum við aftur lenda í einhverju svipuðu og þá munum við vinna okkur út úr því líka.  

Orka hreinsunar, niðurbrots og uppbyggingar verður með okkur næstu árin.  Nú þarf að setja draumana á blað og byrja að teikna samfélagið eins og við viljum að það verði.  Það er fyrsta skrefið.  Svo vinnum við saman, skref fyrir skref, að því að láta draumana rætast.  Við erum skaparar okkar eigin framtíðar og nú höfum við meðbyr - orkan vinnur með okkur. 

www.utanoginnan.is óskar öllum gleði og friðar á árinu 2013.