Tvíburar og árið 2013

Tvíburinn er að upplagi pælari, opinn, vingjarnlegur, þekkir marga og á auðvelt með samskipti.  Hann er fróðleiksfús miðlari, miðlar upplýsingum og því sem honum þykir merkilegt, er mikið á ferðinni (í huganum ef ekki vill betur) og fjölbreytni er honum mikilvæg.  Hann hefur mörg áhugamál.  Breytilega orkan er að baki þessar fjölhæfni og Loft orkan skýrir hugtakið „pælari“ sem Tvíburinn vissulega er.  Nú verður þessi orka sterkari hjá Tvíburum sem eru fæddir á tímabilinu 26. maí til 21. júní, sem þeir geta notað til að auka þekkingu sína, stækka tengslanetið sitt, til að koma sér á framfæri, fá enn fleiri hugmyndir eða til að ná lengra á því sviði sem hann hefur áhuga á.  Sala og viðskipti gætu aukist og viðskipti/samskipti við útlönd að sama skapi.  Tvíburar fæddir á bilinu 21.- 27. maí þurfa samt að hafa varann á sér því styrkur Tvíbura (að upplagi) sem felst í fjölhæfni þeirra vegna breytilegu orkunnar getur snúist í andstöðu sína og orðið veiki punkturinn í tilveru þeirra á árinu.  Þeir verða opnari en vanalega fyrir góðum hugmyndum og gætu því farið að sjá hlutina í rósbleikum tónum í stað grámyglutóna hversdagsins.  Hjá Tvíburum fæddum á þessu tímabili verða mörkin á milli bjartsýni og blekkingar afar þunn og því ættu þeir ekki að gera samninga og plön nema hafa með sér í liði jarðbundna einstaklinga eins og Steingeitur, Meyjur eða Naut sem lesa smáa letrið og blása á óáþreyfanlegar skýjaborgirnar en það gæti forðað þessum Tvíburum frá harkalegri brotlendingu þegar raunveruleikinn tekur við aftur.  Þessir Tvíburar eru engu að síður líklegir til að fá góðar hugmyndir sem þeir ættu að láta nægja að skrifa niður á blað og geyma til betri tíma.

Forsíða