27.janúar 2013 verður fullt Tungl í Ljóni

Eftir því sem Tunglið nálgast fyllingu magnast upp spenna og oft verður vart við þessa spennu í þjóðfélaginu.  Þekkt er að fleiri lögreglumenn eru á vakt þegar fullt Tungl ber upp á helgi þar sem Tunglið getur haft þessi áhrif á fólk að það verður tilfinninganæmara og tilfinningalega opnara.  Það er einstaklingsbundið hverjar tilfinningarnar eru en ef auk þess er drukkið of mikið af víni getur tilfinningatjáningin orðið að flóði og farið úr böndunum en þá þarf stundum að skakka leikinn, eins og gengur.

Um kl. 14 á laugardaginn kemur, 26. janúar, fer Tunglið yfir í Ljónsmerkið og undir morgun á sunnudeginum verður fullt Tungl í Ljóni.  Á þessu tímabili magnast upp stemningin í orku Ljónsins sem er barnsleg gleði, leikir, skemmtun, litir, tónlist og dans.  Ef við setjum þetta saman í eitt orð væri “karnivalstemning“ góð lýsing og þegar svona stemning er í boði á laugardegi og laugardagskvöldi, fram á sunnudagsmorgun, er ekki ótrúlegt að einhverjir eigi eftir að eiga skemmitlegar stundir í góðra vina hópi.

Börnin kunna að skemmta sér og þetta er því góð orka fyrir foreldrana til að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum sínum.

Fyrir þá sem ætla út á lífið er gott að vita að kl. 4:38 er toppnum náð og þá er líka kominn tími til að halda heim enda segir máltækið „Hætta skal leik þá hæst hann stendur“.

www.utanoginnan.is óskar öllum góðrar skemmtunar á laugardaginn.