Meyjur og árið 2013

Meyjur eru iðnar, þjónustulundaðar og vilja hafa nóg fyrir stafni.  Þetta vita Meyjur og þeir sem þær þekkja.  Núna á þessu ári tvíeflast Meyjurnar, a.m.k. þær sem fæddar eru á tímabilinu 29. ágúst til 22. september, eða þar um bil.  Meyjur vilja sjá áþreifanlega árangur eftir sig og þær vilja gera gagn.  Þess vegna geta þeir sem eru svo heppnir að hafa Meyju í vinnu hjá sér hrósað happi.  Vonandi er nú samt að Meyjurnar hugsi líka um eigin hag og noti orkuna sjálfum sér til hagsbóta eða til að gera eitthvað skemmtilegt en ferðalög eru í kortunum hjá mörgum Meyjum.  Hafi Meyjur fæddar á ofangreindu tímabili verið að hugsa um að fara í nám gæti þetta ár einmitt verið rétti tíminn.  Meyjur eru eirðarlausar margar hverjar og sitja ekki kyrrar ótilneyddar.  Þær eiga til að vasast í of mörgu í einu og þá fer skipulagið úr böndunum.  Orka sem blandast inn í líf Meyja sem eru fæddar 23. til  30. ágúst getur haft þau árhrif á þessu ári að þær verði óskipulagðari en venjulega, verði utan við sig og finni fyrir þreytu og orkuleysi sem þær eiga erfitt með að sætta sig við vegna þess að Meyjur þurfa alltaf að vera að gera eitthvað, annars fá þær samviskubit.  Þessi orka ýtir líka undir ímyndunaraflið sem er kannski ekki á bætandi fyrir Meyjur, sem hugsa meira en margir.  Það gæti því verið gott að nota þessa skrítnu orku í skapandi handverk en Meyjur eru margar flinkar í höndunum.  Ef þær eru að sinna verkefni sem gefur áþreifanlegan árangur verður hugurinn upptekinn við verkefnið og þá getur Meyjan slakað örlítið á.

Forsíða