Hugleiðingar stjörnuspekings á vorjafndægri

Senn líður að vorjafndægri en þá er jafnvægi dags og nætur og þá loksins fer blessuð Sólin inn í Eldsmerki en frumefni síðustu 3ggja mánaða hafa verið Jörð (Steingeit), Loft (Vatnsberi) og Vatn (Fiskar).  Kaldir mánuðir þar sem lítið hefur sést til aðal-stjörnu sólkerfisins okkar, Sólarinnar.


Skv. speki Hermetika fjallar biblían um náttúruna, stjörnufræði og stjörnuspeki og þar er það Sólin sem “deyr” og rís upp á þriðja degi.  Hún “deyr” á vetrarsólstöðum, þegar dagurinn er stystur, og á þriðja degi (í 3ja mánuði = mars) rís hún upp frá “dauðum” (úr myrkrinu) og byrjar nýjan hring í Hrút, sem er fyrsta stjörnumerkið í stjörnuhringnum.  Lambið sem leitt er til slátrunar er eina lambið í stjörnuhringnum, Hrúturinn.  Páskalambið.  Páskarnir eru alltaf fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla Tungl, eftir vorjafndægur.  Vorjafndægur verða 20. mars, fullt Tungl í Vog verður 27. mars og páskadagur 31. mars.  Vogin er merki jafnvægis eins og nafnið ber með sér.


Vorið byrjar þegar Sólin fer í Hrútsmerkið og þá byrjar allt að lifna við.  Fræin spíra og byrja að vaxa í moldinni, trén bruma, sumarfuglarnir koma hver af öðrum og fara brátt að gera sér hreiður, fólkið skríður út úr húsunum og veröldin vaknar til lífsins.  Orka Hrútsins er líka einstaklingsframtakið.  Það má sjá fyrir sér að það sé ógrynni einstaklinga sem lifna við í Hrútsmerkinu og mynda vorið.


Vorjafndægur er annar af tveimur dögum ársins þar sem jafnvægi ríkir milli dags og nætur en hinn dagurinn er haustjafndægur.  Jafnvægi er gott.  Jafnt vægi.  Hvorugt ofar öðru.  Nóttin er ekki lengur ráðandi eins og hún hefur verið.  Hún stendur jafnfætis deginum.  Tilfinning um virðingu vaknar við þessar hugleiðingar og vonin kviknar í vissunni um að jafnvægi er til.  Náttúran kennir okkur það og sýnir okkur hvað jafnvægi er núna á vorjafndægri.  Það er þegar dagurinn og nóttin standa jafnfætis á vaktaskiptunum áður en dagurinn verður lengri en nóttin.


Núna á þessu vorjafndægri verður spenna í himintunglunum svo vorið byrjar með krafti en af því að sama orkan er allsstaðar í alheiminum þá vitum við að það verður spenna á jörðinni líka, í löndunum og hjá þjóðunum.


27. mars verður fullt Tungl í Vog, eins og áður hefur komið fram, og þá myndast kröftugur spennuþríhyrningu þegar Úranus, Sólin, Venus og Mars saman í Hrútsmerkinu verða í 180° spennu við Tunglið í Vog og í 90° spennu við Plútó í Steingeit.  Þetta eru allt Frumkvæð merki (Hrútur, Vog og Steingeit) svo frumkvæði er það sem þessi spennuþríhyrningur ber með sér.


Í þjóðarstjörnuspeki táknar Tunglið almenning og með það í huga að orka Hrútsins er m.a. lýsandi fyrir einstaklingsframtakið þá er óneitanlega freistandi að gæla við þá hugmynd að einmitt núna vakni einstaklingarnir til vitundar, snúi saman bökum og taki yfir stjórnina á yndislega fallegu Jörðinni okkar sem er orðin kúgaður þræll gráðugra valda- og peningafíkla.  Því við skulum ekki gleyma því að þó Jörðin sé “bara kúla” sem þýtur á ógnarhraða um himingeiminn þá er ekkert meira lifandi í sólkerfinu, auk Sólarinnar, en einmitt móðirin okkar Jörðin sem fæðir okkur og klæðir.  Maturinn sem Jörðin getur gefið af sér handa okkur er orðinn af svo skornum skammti að byrjað er að telja niður.  Ef heldur áfram sem horfir þá verður farið að berjast um mat eftir 30 ár.  Framlag í átt til betri þróunar og samtakamáttur mun ekki koma frá yfirvöldum því það eru einstaklingarnir, á Íslandi og um allan heim sem þurfa að vakna til vitundar og orka Úranusar í Hrút bendir einmitt á það.


Valda- og peningafíklarnir hætta ekki að níðast á Jörðinni svo eina vonin er að við jarðarbörnin, einstaklingarnir, gerum eitthvað, og þess vegna hef ég leyft mér að gæla við þá hugmynd í 30 mínútur að einmitt núna sé augnablikið – sem einstaklingarnir vakni til vitundar (Úranus í Hrút), byrji að brjóta niður þrælasamfélagið og hreinsa í burtu allan óþarfa (Plútó), komi aftur á jafnvægi, réttlæti og sanngirni (Vogin) og byggi upp (Steingeitin) nýjan og heilbrigðan heim.  Lái mér hver sem vill.


Spennan á milli Plútó og Úranus er nokkuð sem stjörnuspekingar um allan heim fylgjast glöggt með en það er margt stórt að gerast í heimsmálunum sem tikkar eins og tifandi tímasprengja, eins og þeir vita sem fylgjast með.  Úranus og Plútó mynda öðru hvoru 90° spennuafstöðu í Steingeit (Plútó) og Hrút (Úranus) en í hvert sinn sem þeir mynda nákvæmlega 90° afstöðu er annar alltaf í bakkandi afstöðu og það dregur úr áhrifunum.  Það verður ekki fyrr en á árinu 2015 að þeir mætast í hreinni spennu sem mun ekki verða hávaðalaus því eins og segir í góðri bók, “svo á jörðu sem á himni”.


Allt-um-faðmandi knús inn í vorið,

Hrafnhildur Geirsdóttir, stjörnuspekingur