Spurt og svarað

Er stjörnuspáin í dagblöðunum stjörnuspeki?
Stjörnuspá er meira gerð svona til gamans og mætti líkja við kínverskar örlagakökur (Fortune coockie).
Dagblöðin eru ekki með stjörnuspeking í vinnu hjá sér sem daglega gerir spá fyrir hvert stjörnumerki. En væri svo þá væri tæplega nóg að gera eina stjörnuspá fyrir hvert merki því engin manneskja hefur eins stjörnukort og önnur nema í þeim tilfellum þegar fleiri en eitt barn fæðast á nákvæmlega sama stað og sama tíma, eins og t.d. tvíburar, sem oft hafa eins stjörnukort.

Eru allir sem eru í sama stjörnumerki eins?
Sólin táknar viljann, athafnaorkuna og eðli einstaklingsins en stjörnumerkið lýsir helstu eiginleikum og einkennum.  Einstaklingurinn hefur það í grunninn en margt annað hefur áhrif á einkenni hans og eiginleika og því er t.d. ekkert Naut eins og annað Naut.  Himintunglin (pláneturnar) eru 10 og sambland af orka þeirra endurspeglast í einstaklingnum.  Þess vegna er ekki nóg að skoða bara merkið sem Sólin er í til að lýsa honum.  Stjörnukort eru mismunandi vegna þess að einstaklingar eru fæddir á mismunandi stöðum og mismunandi tímum (dagur, ár og tími) og þar sem himintunglin eru á stöðugri hreifingu eru þau á mismunandi stöðum í stjörnukorti hvers einstaklings.  Út frá Sólinni er hægt að lýsa einkennum sem einstaklingur hefur með fyrirvara um áhrifin sem aðrar plánetur hafa.  Það er því ónákvæmni í því að skoða bara merki Sólarinnar.

Er stjörnuspeki notuð til að spá fram í tímann?
Það er hægt að sjá hvaða áhrif eru væntanleg útfrá stöðu himintunglanna og segja til um hvað er í vændum. 

Til að gefa einfalt dæmi væri hægt að segja frá því að hinn orkumikli Mars beini orku sinn að heimilinu í ágúst. Ef búið var að skipuleggja að mála húsið gæti verið skynsamlegt að gera það einmitt í ágúst til að nýta framkvæmdaorkuna. Hinsvegar ef það þarf ekki að mála húsið og búið var að skipuleggja að eiga mjög rólegan ágúst heima við, þá einfaldlega nýtist ekki orkan sem er í boði eða, sem líklegra er, þú hefur svo mikla orku að þú lætur verða af því að taka til í bílskúrnum eða breyta í stofunni þó þú hafir ætlað að slaka á.

Þegar orka himintunglanna er okkur hagstæð er ekki víst að við getum nýtt okkur það á sem bestan veg.  Sérstaklega vegna þess að fæstir vita hvað er í vændum og hafa því ekki skipulagt sig, eða undirbúið sig fyrir orku sem hentar ekki svo vel.  Margir kannast við það að ætla að gera eitthvað en ekkert gengur upp. Svo einhverju seinna gengur allt upp án nokkurrar fyrirhafnar. Líklega er hægt að finna skýringar á því í himintunglunum.

Sullenberger flugmaður í Bandaríkjunum er gott dæmi um einstakling sem nýttist orkan sem var í boði, þó hann hafi eflaust ekki vitað af henni fyrirfram. Hann lenti í því að farþegaflugvélin hans missti afl á báðum hreyflunum eftir að hann flaug í gegnum fuglahóp og hann ákvað að lenda í ánni Hudson. Á upptökum við flugturninn má heyra að hann er alveg poll-rólegur. Hann spyr flugturninn um næsta flugvöll og segir svo bara sí svona "ég ætla að lenda í ánni". Lendingin var óaðfinnanleg (miðað við að lenda í á auðvitað) og enginn slasaðist, svo ótrúlegt sem það má vera. Hann fór síðastur frá borði eftir að hafa kannað tvisvar hvort einhver væri eftir í flugvélinni og var heiðraður sem hetja eftir atvikið.

Júpiter, pláneta heppni og þenslu, var í nákvæmlega sömu gráðu og Sólin er í fæðingarkortinu hans. Þar sem Júpiter þenur allt út sem hann er nálægt, stækkaði hann Sólina hans (egóið), innsta eðlið. Í þessum aðstæðum þurfti hann að vera fljótur að hugsa og þar sem Júpiter var í Vatnsbera þá var hugsun hans skýr, en eitt af einkennum Vatnsberans er snilligáfa og merkið sem Júpiter er í bendir á það hvað stækkar (hugsunin). Orkan sem var í boði fyrir Sullenberger nýttist honum svo sannarlega þennan örlagaríka dag.

Hrafnhildur Geirsdóttir 25. mars 2009