Tungl/Sól í samskiptakorti

Ég var á námskeiði þar sem nokkrum sinnum áttu tveir nemar að skoða saman eitt ákveðið mál í 5-10 mínútur.  Í hvert sinn sem einhver var að skoða með mér mál kom einn ákveðinn aðili á námskeiðinu og blandaði sér í málið. Yfirleitt með því að ræða við hinn aðilann sem ég var með í hóp og var aldrei sá sami. Þetta var hið skrítnasta mál. Ég veit ekki hvort hann tók eftir þessu sjálfur en þar sem þetta var í hvert einasta sinn þá er ekki hægt að tala um tilviljanir. Þar sem innkoma þessa aðila varð alltaf til þess að ég svona hálfpartinn útilokaðist úr umræðunni því hann beindi athygli sinn að hinum aðilanum sá ég ekki hvernig málið tengdist mér. Ég átti samskipti við hann eins og aðra á námskeiðinu og þau voru bara í fínu lagi.

Stjörnuspekiforvitni mín var vakin og ég fékk leyfi til að skoða stjörnukortið hans án þess að tiltaka sérstaklega ástæðu forvitninnar. Þar kom í ljós að Tunglið hans er í nákvæmlega sömu gráðu og Sólin mín, uppá mínútu. Það sem gerðist þarna var að Tunglið hans (tilfinningavitundin) í Tvíbura (tjáningin) náði að skína í gegnum Sólina mína og hann einfaldlega tók sér bara stöðu í henni (eða fyrir framan mig) og lagði til málanna það sem honum lá á hjarta.

Þetta er gott dæmi um það hvernig stjörnuspekin getur útskýrt hegðun, sem á öðrum stað og öðrum tíma hefði kannski endað í hávaða rifrildi.