Mars/Merkúr

Ég fæ stundum kvíðahnút í magann og finn herping í hálsstöðinni. Þetta er svona tilfinning eins og að mér sé þrengt og ég geti ekki svarað fyrir mig. Mjög óþægileg tilfinning en líka skrítin þar sem hún er ekki í takt við raunveruleikann, þannig séð að ég er kannski ekki í þessari stöðu þó tilfinningin bendi til þess. Það sem veldur þessu er Mars þegar hann er í spennuafstöðu við Merkúr í stjörnukortinu mínu.

 Það sem ég áttaði mig á er að ég er aldrei betri rithöfundur en einmitt á þessum sama tíma. Mars (framkvæmdaorkan) setur pressu á Merkúr (hugarorkuna) og tjáningin fer einmitt í gegnum hálsstöðina (5. orkustöðina). Það losar mig ekki við hnútinn í maganum eða herpinginn í hálsstöðinni að vita þetta en það gerir mér kleift að nota þessa orku mér í hag. Og til að nýta orkuna sem best er ég búin að setja dagsetningar þar sem Mars er í afstöðu við Merkúr, og sem henta mér sérstaklega vel til skrifta, inn á dagatalið mitt og get þá skipulagt tímann minn með tilliti til þess.