Rómantísk, skemmtileg og skapandi orka í vændum

Ég set þetta inn tímanlega til að fólk geti skipulagt sig því þann 10. águst byrjar nýtt Tungl í Ljóni.

Þá slær hjartað í rómantískum tangó-takti hjá þeim sem eru ástfangnir, sköpunareldurinn logar hjá listafólkinu og þeim sem vinna að skapandi og skemmtilegum verkefnum, hlátur og leikgleði yfirgnæfir skarkala hversdagsins. Það verður bara skemmtilegt ef þú hittir orku nýja Tunglsins í Ljóni sem varir frá 10. ágúst til 24. ágúst. Eftir það fer Tunglið minnkandi og orkan að sama skapi þverrandi.

Notaðu tækifærið og gerðu eitthvað skemmtilegt á þessum tíma. Búðu til stund til að njóta orkunnar. Samvera verður sérstaklega skemmtileg, fjörug, rómantísk og meira skapandi. Farðu út að leika!

Mundu bara eftir umburðarlyndinu til 13. ágúst! (sbr. greininni á undan)

Nýtt Tungl er líka góður tími til að byrja á einhverju nýju, starta einhverju. Þegar nýja Tunglið er í Ljóni þá er góður tími til að byrja á einhverju sem krefst þess að hafa hjartað með í för.

Fólk sem er fætt í Ljónsmerkinu getur fundið Ljónsorkuna í sér eflast í nýju Tungli í Ljóni og það er líka mjög sjaldgæft að fá nýtt Tungl í afmælisgjöf en það fá þeir nú sem eru fæddir 10. ágúst.