Merkúr bakkar

Merkúr fer aftur á bak frá 20. ágúst til 12. september 2010. Áhrifin byrja að gera vart við sig u.þ.b. 2 vikum áður. 

Merkúr heldur utan um flutninga-, samskipta- og upplýsingamál. Orka hans er kvik eins og hugurinn enda er samasem merki milli hans og hugarorkunnar. Þegar Merkúr fer aftur á bak hægist á þessari kviku orku og öllu sem hann heldur utan um.

Það þýðir, svo eitthvað sé nefnt, að í flutningamálum geta orðið tafir, afpantanir, breytingar og bilanir, samskipti geta einkennst af misskilningi og upplýsingar geta misritast, verið rangar eða það sem verra er, tapast.

Tafir er því orðið ef velja má bara eitt orð til að lýsa orku Merkúr þegar hann fer aftur á bak, því það tekur tíma að skilja, leiðrétta og laga.

Það getur borgað sig að hafa varann á sér í þennan tíma því margt fellur undir þessa orku. Bara til að gefa smá dæmi úr daglegu lífi mætti nefna:

- Ferðaáætlun breytist, ferðinni seinkar, farangurinn kemur ekki með vélinni.
- Þú kaupir bíl og hann þarf að fara beint á verkstæði.
- Tölvan eða síminn bilar.
- Þú misskilur eitthvað, t.d. leiðbeiningar og gerir eitthvað vitlaust.
- Þú gleymir tímanum hjá tannlækninum eða hann tvíbókaði í tímann þinn.
- Upplýsingar í tilboði/samningi eru rangar, þær vantar eða þær breytast.

Það getur borgað sig að taka afrit af gögnum, endurreikna tölur, leggja tímanlega af stað, spyrja aftur ef þú ert ekki viss og taka engu sem sjálfgefnu. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið þegar Merkúr fer aftur á bak.

Það góða við Merkúr í aftur á bak gír
Þegar Merkúr fer aftur á bak hentar orkan vel til þess að gera það sem krefst þess að líta til baka og fara yfir eitthvað sem var áður búið að gera eða byrjað var á. T.d.

- Endurraða, endurnýja, endurvinna, endurhugsa osfrv. Þetta er góður tími til að laga til í skápunum, geymslunni og bílskúrnum.
- Hitta gamla vini, vinnufélaga eða jafnvel endurnýja kynnin við gamla skólafélaga.
- Taka upp þráðinn í verkefni sem var byrjað á en ekki búið.