Meyjan er í sviðsljósinu núna

Nú er orka Meyjunnar allsráðandi – gaman fyrir Meyjur!!

Orka Meyjunnar er breytilega jarðorka sumarsins.

Breytileg sem þýðir að Meyjan þarf fjölbreytni og vill fást við breytileg verkefni og jarðorka sem þýðir að Meyjan vill fást við jarðbundin og áþreifanleg verkefni. Meyjan er iðin og trúir bara því sem hún sér eða getur snert á og hefur minni áhuga að einhverjum fjarlægum óljósum möguleikum á einhverju sem hugsanlega gæti verið eða gæti gerst.  Það á þó ekki við ef hún hefur áhyggjur af einhverju en þá gæti hún verið formaður áhyggjufélagsins.

Tími Meyjunnar er síðasti hluti sumarsins, uppskerutíminn, og uppskeran er einmitt fjölbreytt og áþreifanleg. Þess vegna finnst Meyjunni að hún geti verið allt í öllu og allstaðar en það er orkan sem uppskerutíminn bíður uppá enda þarf að huga að mörgu á þeim tíma.

Við erum öll undir áhrifum Meyjunnar núna. Það eru margir að taka upp kartöflur og kál, tína ber og gera sultu. Þetta er líka tíminn þegar skólarnir eru að byrja enda er Merkúr, pláneta hugsunar og rökhyggju, einmitt pláneta Meyjunnar.