Spenna í fullu Tungl - 23.september

Fulla Tunglið í Hrút þann 23. september myndar spennuþríhyrning og verður líklega með kröftugara mótinu.  Það verður í samstöðu við Júpiter og Úranus, beint á móti Sólinni í Vog og í spennu við Plútó.

Hrúturinn er merki einstaklingshyggjunnar, frumkvæðis og skyndihvatar.  Það er því gott að nota orku hans til að byrja á hlutum og verkefnunum.  Hann gefur startið, hraðann og drifkraftinn.  Orka hans í fullu Tungli varir þó stutt en í Uppskerutunglinu, eins og Indíánar kölluðu fullt Tungl í september, nýtist orka Hrútsins til að hafa hraðar hendur við að ná uppskerunni á stuttum tíma.

Svo á jörðu sem á himni.
Orka Úranusar, nýjungar, breytingar, frelsi og sjálfstæði, getur fært eitthvað nýtt, spennandi og óvænt. Orka Júpiters er þensla og vöxtur, hann stækkar og þenur út það sem hann snertir og getur aukið og ýkt.  Plútó er öllu alvarlegri og hreinsar burtu óþarfa og það sem er úrelt og úr sér gengið. Plútó er í Steingeit og er því að hreinsa strúktúr, reglur og form. Vogin er stjörnumerki Sólarinnar núna.  Hún er merki samvinnu, félagsmála og réttlætis en líka óákveðni og ójafnvægis.  Þetta hljómar allt kunnuglega í daglega lífinu.

Það er athyglisvert að sjá að fulla Tunglið (og spennuþríhyrningurinn) myndar spennu kross (grand cross) í stjörnukort íslensku þjóðarinnar við Neptúnus (landamæraleysi, hugsjónir, blekking, ímyndanir) og Satúrnus (samdráttur, agi, kerfi, metnaður).

Það má segja um Neptúnus sem er á Rísandanum í 12 húsi í þjóðarkortinu að hann sé tákngerfingur meðvirkni þjóðarinnar og þeirrar blekkingar sem hún lifir í.  Um Satúrnus í 9 húsi að hann sé tákngerfingur kerfisins.

Þessi spennumynd sem himintunglin gefa okkur er sama spennan og ríkir í þjóðfélaginu. Það er spenna á milli kerfisins (Satúrnus) og almennings (Tunglið), kerfið á undir högg að sækja þar sem það er orðið úrelt í þeirri mynd sem það er (Plútó í Steingeit) og meðvirknin (Neptúnus á Rísandanum) stendur þjóðinni fyrir þrifum á átt að þroska og ábyrgð.

Það þarf líklega töluvert hugmyndaflug til að gera sér grein fyrir hvaða birtingarmynd öll þessi spenna fær í fullu Tungli þann 23. september en hvað sem það verður fer það ekki framhjá neinum og kemur að öllum líkindum á óvart þar sem Júpiter og Úranus verða með í för.