Er eitthvað jákvætt í gangi?

Mig langar til að finna eitthvað jákvætt út frá himintunglunum því hið gagnstæða hefur verið áberandi. Það virðist ekki margt jákvætt við stöðuna í þjóðarbúinu eins og hún er núna, þegar orka Satúrnusar í 1 húsi í stjörnukorti íslensku þjóðarinnar sýnir okkur hvernig staðan raunverulega er. Hann bendir okkur í fúlustu alvöru á afleiðingar fortíðarinnar. Við getum ekki flúið fortíðina og heldur ekki flúið afleiðingar hennar. Þá er bara eitt að gera. Takast á við afleiðingarnar og læra af fortíðinni. Til þess að takast á við afleiðingarnar þurfum við að taka mið af stöðunni eins og hún er og þá má spyrja sig hvort eitthvað sé jákvætt við stöðuna.

Hér eru nokkur atriði sem munu breytast vegna þess að þannig er orkan í himintunglunum og ef þessi atriði eru ekki í góðum málum fyrir mætti segja að það sé jákvætt að þau eru að breytast, því við viljum ekki halda áfram í neikvæða átt.

Hreinsunarorka Plútó er í aðalhlutverki og það ferli getur verið sársaukafullt. Orkan hans varir lengi og breytingar gerast á nokkrum árum upp í áratugi, eftir því hvað hann snertir og hvar.

Orka Plútó er ekki bara að brjóta niður og eyða því ef það sem tengist orku Plútó þjónar tilgangi verður það sterkara þegar búið er að hreinsa í burtu óþarfann í kringum það. Hún hreinsar til að skýra og skerpa eða til að rýma svo hægt sé að byggja nýtt upp á rústum þess tilgangslausa.

Heimili og fjölskyldurnar

Í þjóðarkortinu verður Plútóorkan að hreinsa og skerpa málin í sambandi við fjölskyldur og heimilin fram í mars 2026 en áhrifin hafa þegar gert vart við sig. Plútó fer hægt enda vinnur orkan djúpt og á mikilvægum málum sem breytast til frambúðar.

Hvernig hefur húsnæðismálum verið háttað?

Það er staðreynd að allir þurfa þak yfir höfuðið. Ef menn vilja heldur leigja húsnæði þurfa þeir að eiga við mis-dyntótta leigusala og leigan er það há að það borgar sig alveg eins að leggja peningana í eigið húsnæði. Þetta er svo fyrirferðarmikil fjárfesting vegna verðtryggingarinnar að hún endist ævina alla.

Er það ekki skrítið afrek á heilli mannsævi að hafa náð því að eignast húsnæði og vegna þess að hafa lítinn tíma til að vera á heimilinu og í samvistum með fjölskyldunni?

Markmiðin

Plútóorkan er líka að hreinsa og skerpa markmið þjóðarinnar. Hver eru markmið íslensku þjóðarinnar? Hverju erum við öll að stefna að?

Að byggja álver og orkuver? Selja auðlindir og orku á útsöluverði? Eða er Plútó kannski að sýna okkur að það eru engin markmið fyrir þjóðina, bara fárra útvalinna innan kerfisins sem hagnast á tilviljanakenndum verkefnum sem skjóta upp kollinum eftir þörfum.

Auðvitað eiga að vera til markmið fyrir íslensku þjóðina sem allir vita um og vinna saman að.

Andlit þjóðarinnar

Hvað fleira er orka Plútó að hreinsa? Jú hún er að hreinsa þjóðarandlitið. Hvernig kemur þjóðin fram og hvernig upplifir hún utanaðkomandi áhrif? Ísland er rísandi Vog - tekur vel á móti gestum sínum frá útlöndum, kurteis, diplómat og vill gera til hæfis. Með Neptúnus á rísandanum er hún auk þess meðvirk, lifir í blekkingu, með sterkt ímyndunarafl og listræn. Eftir að Plútó hefur verið í afstöðu við rísandann verða andlitsdrætti þjóðarinnar skarpari og skýrari.

Kerfi munu breytast (hrynja)

Öll kerfi sem þjóna ekki lengur tilgangi munu brotna niður og hverfa í þeirri mynd sem nú er. Orka Plútó í Steingeit endurspeglar hreinsun á öllum óþarf innan kerfa eða sem bundinn er í kerfi og strúktúr á einhvern hátt. Sem dæmi um kerfi má nefna fjármálakerfi, stjórnmálakerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, valdakerfi, stríðskerfi, kirkjuna o.s.frv. Ef það er strúktúr eða kerfi sem þjónar ekki tilgangi mun það brotna niður. Þetta á ekki bara við um Ísland.

Einstaklingsframtakið eykst

Einstaklingar og óbreyttir borgarar eiga eftir að taka málin meira í sínar hendur í stað þess að bíða eftir því að aðrir (kerfið) sjái um allt fyrir þá. Nýjungar munu skjóta upp kollinum og frelsiskrafan mun aukast. Þessi orka vaknaði þegar Úranus fór í Hrút í enda maí. Birtingarmynd orkunnar sást skýrt í framboði borgaranna í bæjarstjórnarkosningunum 29. maí 2010.  Þessi breyting á líka við um veröld víða.

Þó maðurinn hafi mikla aðlögunarhæfni óttumst við oft breytingar. Þrátt fyrir það verða breytingar og betra er þá að vinna með breytingunum en á móti þeim því þannig getum við haft áhrif á útkomuna.