Himintunglin og jólastemningin

Núna er Sólin í stjörnumerki Bogmannsins, merki frelsis, þekkingarleitar, fjölbreytni, hreyfanleika, jákvæðni og bjartsýni. Merkinu sem þolir ekki vanabindingu og formfestu. Þess vegna erum við svona út um allt þessa dagana að skoða og versla eitthvað sniðugt og skemmtilegt í jólagjöf, í jólahlaðborðum, á jólatónleikum og hvað þetta skemmtilega heitir nú allt saman sem jólaundirbúningurinn felur í sér.

Bogmannsorkan fellur rétt fyrir miðnætti þann 21. desember þegar Sólin fer í Steingeitarmerkið, inn í formföstu, skipulögðu og ósérhlífnu, tryggu og traustu Steingeitina, sem virkjar í okkur skipulagið, formfestuna og ósérhlífnina. Þá gerum við allt sem þarf að gera og rækjum allar skyldur og hefðir sem fylgja jólunum til að jólin verði fullkomin. Jólatréð fer á sinn rétta stað, við keyrum út pakkana, förum í kirkjugarðinn, skipuleggjum jólamáltíðina og svo er farið í bað og sparifötin. Slaufan bein, friðarkertið út á verönd og bingó! Jólin byrja.

Ef við höfum lítinn tíma til undirbúnings fyrir jólin nýtist Steingeitarorkan einstaklega vel þessa rúmlega tvo daga fram að jólum.  Það kannast líklega margir við það að vaka lengi fram eftir síðustu dagana fyrir jól til að klára allt sem þarf að gera til að jólin verði eins fullkomin og myndin (skipulagið) sem við höfum í huganum af fullkomnum jólum.

Það er gaman að gefa sér tíma til að skynja Steingeitarorkuna þegar hún leggst yfir og Bogmannsorkan víkur. Jólaundirbúningurinn skiptir skyndilega um gír, svona hjá flestum. Þá er ekki lengur tími til að leika sér og dreifa orkunni svona frjálslega eins og þegar Bogmannsorkan er virk.

Fyrr um daginn þann 21. desember þegar Sólin er á síðustu mínútunum í Bogmanni er fullt Tungl í Tvíbura sem vonandi færir góða stemningu, jákvæðni og gleði.

Utan og innan óskar öllum gleðilegra jóla og þér lesandi góður þess að þú lifir orkuna þína.